þriðjudagur, janúar 06, 2004

Hananú!

Kæru flokksbræður og aðrir velunnarar.

Það er mér sönn ánægja að koma hér á framfæri hinum árlega þrettándapistli Einræðisflokksins. Margt hefur drifið á daga flokksins frá óformlegri stofnun hans og verður hér á eftir ymprað á þeim atriðum sem eru mér efst í huga, einnig verða gefnar út tilkynningar.

Flokkurinn var í raun óformlega stofnaður í upphafi árs 2003 og því er nú um ársafmæli flokksins að ræða um þessar mundir. Rætt hefur verið um að tímabært sé að verða að skrifa bók um sögu hans og myndi hún verða í tveimur bindum. Ekki hafa þó hafist viðræður við útgefendur að svo stöddu. Verðandi einræðisherra hóf göngu flokksins með því að slíta, snúa og teygja flest það sem hægt er í ökkla í ársbyrjun... vitandi það að fall er fararheill. Vildi hann með þessu sýna stuðningsmönnum sínum hersu langt hann vildi "ganga" til að tryggja þegnum landsins (framtíðar skattgreiðendum) betra líf. Það var ekki að sökum að spyrja að fylgi flokksins margfaldaðist í næstu samdrykkjum í framhaldi af þessu. Ekki leið því á löngu þar til deila þurfti verkefnum til fleiri aðila, skipað var í embætti (enn eru nokkrar stöður lausar fyrir rétta fólkið). Mikilvægast af þeim er án efa embætti áróðursmálaráðherra, en það skipar Sössinn. Slagorð eins og "heiðarlegt arðrán - allra hagur" heyrast nú víðsvegar í samfélaginu, þökk sé ötulu starfi hans (í prentsmiðju Odda). Mótuð var stefnuskrá, þar sem helstu markmið flokksins voru listuð upp og ber þar hæst miklar skattalækkanir, auk ýmissa smáverkefna s.s. að leggja niður störf Alþingis í beinu framhaldi af afnámi lýðræðis í landinu. Einræðisherrann og helstu ráðgafar hittast reglulega og ræða störf flokksins (yfirleitt á föstudagskvöldum) og verið er að leggja grunninn að stórsigri í kosningum 2007, ætla má að þeirri vinnu ljúki undir lok árs 2005. Það sem hugsanlega er þó mesta gleðiefni flokksins er sá vaxandi stuðningur sem landsmenn hafa sýnt á árinu, líkja mætti þessari aukningu við syndaflóðið og hafa menn jafnvel talað um syndaflóðið síðara (hið fyrsta í íslenskri pólitík og þar með hið síðasta þannig að um merkilegan atburð er að ræða sem enginn ætti að missa af að taka þátt í!). Verðandi einræðisherra endaði síðan árið með því að brjóta á sér vinstri hendina... til að vekja athygli á fötlun örvhendra.

Í tilefni af árs afmæli flokksins er boðið til veislu að heimili áróðursmálaráðherra á föstudagskvöldið næstkomandi, mættir skrást sjálfkrafa í flokkinn til að spara skriffinsku.

Síðasti hluti ljóðabálksins Mekaník hefur litið dagsins ljós og mun verða birtur innan tíðar. Bálkurinn í heild sinni kemur út hér síðar. Hugsanlegt er að DVD útgáfa af honum muni fylgja síðara bindi sögu flokksins.

Að lokum vil ég óska öllum hjartanlega til hamingju með lífið og tilveruna (þeir sem eru ekki sáttir ættu þó að staldra örlítið við og bíða eftir að flokkurinn gefi út bókina "3004 leiðir til að stytta sér aldur", en þar er að finna mikið af nýstárlegum og skemmtilegum hugmyndum auk klassískra gullmola).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home