Hananú!
Jæja, nú lítur sunnudagspistillinn dagsins ljós. Umfjöllunarefnið er margþætt og jafnvel örlítið óspennandi og leiðinlegt, en það er jú það sem þetta snýst allt saman um.
Við Sössinn höfum haft það fyrir sið nú um allnokkurt skeið að hafa svona "ameríska" sunnudaga. Þá étum við saman óhollann mat, borðum nanmmi og horfum á íþróttir. Byrjum á fótbolta en síðan kemur að hápunkti dagsins, ameríska ruðningnum. Það sem er mest spennandi við hann er að hvorugur okkar kann mikið af reglunum sem leikmenn styðjast við og auk þess þekkjum við enga leikmenn eða neitt svoleiðis. Því veljum við okkur lið til að halda með í upphafi leiks og myndast oft mikið trash talk á máli sem hvorugur okkar skilur. Nú í kvöld munu mætast New York Jets (sem ég fékk síðasta sunnudag) og Seattle Seahawks (sem ég valdi núna, af því að ég veit hvað hitt liðið er ömurlegt eftir háðulega útreið síðustu helgi). Ég vona að Seattle séu í hvítum búningum því að þá er þeim tryggður sigur, en útskýringin á þessari einföldu staðhæfingu er einmitt aðalefni sunnudagspistilsins.
Hvítur litur er góður, hvítur litur er allir litir. Svartur er aftur á móti enginn litur heldur alfarið skortur á lit. Hinsvegar segja mér menn að þegar verið er að búa til lituð klæði sé fyrst tekið hvítt klæði og það litað. Með því erum við að bæta efnum í annars ágætis flík, til að flikka upp á hégómagirnd einstakra manna. Það liggur þá í hlutarins eðli að með því að bæta við þessum efnum verður flíkin þyngri en ella. Ég veit ekki hversu vel menn eru að sér í sögunni en það tíðkaðist eftir orrustur að rölta um vígvöllinn og stúta riddurunum sem lágu á bakinu í brynjunum sínum (sem voru augljóslega með alltof mikið litarefni) algerlega bjargarlausir. Það er því ljóst að búningar hafa mikil áhrif á hreifigetu manna. Liverpool eru í alveg rauðum búningum, sennilega eru þeir voðalega þungir og það gæti skýrt að einhverju leiti gengi liðsins. Fyrir utan það þá sér það hver heilvita maður að það að spila í léttari galla ætti að hjálpa íþróttaliðum að ná árangri. T.d. er núna Sevilla að vinna Betis í spænska boltanum, það þarf vart að taka fram að Sevilla eru í nær alveg hvítum búningum. Þeir eru mun léttari á sér og vart farnir að þreytast, en Betis í grænum og svörtum búningum nánast uppgefnir og komast vart úr sporunum.
Málið er s.s. einfalt. Ég veit að New York Jets eru ekki í hvítum búningum, hef því líkurnar mín megin á sigri í kvöld!